Gunnar Valur er verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, sem eru samtök fyrirtækja sem að starfa í ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin eru frjáls félagasamtök en markmið þeirra er að stuðla að góðu og tryggu rekstrarumhverfi fyrir ferðaþjónustuna.
Öryggisventillinn skiptir mestu máli
Það sem skiptir almennt mestu máli varðandi aðild að stéttarfélagi myndi ég segja að væri öryggisventilinn og tryggingar þegar kemur að veikindum eða slysum. Sjálfur gerðist ég aðili að Félagi lykilmanni vegna þess að það er ekki hefðbundið stéttarfélag og það sem að heillaði mig var einmitt þessi öryggisventill sem FLM býður upp á og snýst um að fá tryggingavernd ef kemur að veikindum eða slysum.
Ég er ekki að leitast eftir kjarabaráttu eða eftir stuðningi í formi styrkja, eins og heilsubótastyrkja eða gleraugnastyrkja.
“Það skiptir máli að það sé einhver fallhlíf sem tekur við manni ef maður lendir í alvarlegum veikindum eða slysum.”
Gunnar Valur Sveinsson
Vildi ekki vera í hefðbundnu stéttarfélagi
Ég er viss um að þeir sem velja Félag lykilmanna eru þeir sem vilja ekki endilega vera aðilar að hefðbundu stéttarfélagi, til að geta sótt í styrki eða ráðgjöf, heldur vilja þeir sjá sjálfir um að sækja sér þekkingu á sínum forsendum, í sínu sérfræðiumhverfi.
Ég veit að FLM gerði samning við Samtök atvinnulífsins, sem er bara mjög gott. Þá geta þeir sem það kjósa leitað í þann samning þegar þeir eru í viðræðum við vinnuveitanda um kaup og kjör. Þar er þá kominn ákveðinn rammi og viðmið sem fólk getur nýtt sér.
Sjúkrasjóður FLM er öruggur kostur
Hlutverk sjúkrasjóðs FLM er að veita félagsmönnum afkomubætur í veikinda- og slysatilfellum. FLM brúar það tekjutap sem verður frá því að veikindarétti launþega lýkur hjá vinnuveitanda (að lágmarki 3 mánuðir) og þar til örorkulífeyrir greiðist frá lífeyrissjóði.